3. nóv. 2017

Fjárhagsáætlun 2018-2021

Fjárhagsáætlun Garðabæjar var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fimmtudaginn 2. nóvember sl. Samhliða næstu árs áætlun var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun Garðabæjar fyrir árin 2019, 2020 og 2021. Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla áætlunarinnar verði í bæjarstjórn Garðabæjar 7. desember nk.
  • Séð yfir Garðabæ
Fjárhagsáætlun Garðabæjar var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fimmtudaginn 2. nóvember sl.  Samhliða næstu árs áætlun var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun Garðabæjar fyrir árin 2019, 2020 og 2021.  Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla áætlunarinnar verði í bæjarstjórn Garðabæjar 7. desember nk.

Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði um 110 m.kr.  og í A og B-hluta um 545 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 1782 m.kr.  Framlegð er áætluð 14,7% en er 13,4% samkvæmt áætlun 2017. 

Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk, skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum.  Skuldahlutfall var 112,7% skv. ársreikningum Garðabæjar og Álftaness 2012, en var komið niður í 78,7% skv. ársreikningi Garðabæjar fyrir árið 2016. Í framlagðri áætlun er gert ráð fyrir að skuldahlutfall í árslok 2018  verði 81,1% og skuldaviðmið skv. fjármálareglum 65,5%. 

Í forsendum fyrir fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 13,7% og að álagningarhlutfall fasteignaskatta lækki úr 0,23% í 0,21%.  Einnig er gert ráð fyrir að hvatapeningar hækki í 50.000 kr. fyrir hvert barn á árinu 2018. 

Hófleg íbúafjölgun hefur verið síðustu ár í Garðabæ og samhliða hafa fylgt auknar skatttekjur.  Íbúafjölgunin hefur verið nokkuð stöðug á bilinu 1,5 – 3% og langt yfir landsmeðaltali.  Á sama tíma hafa stofnanir bæjarins getað fylgt eftir fjölguninni og veitt góða þjónustu.   Í frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árin 2018-2021 er tekið tillit til mikillar uppbyggingar sem sést m.a. í því að að gert er ráð fyrir að Urriðaholtsskóli taki til starfa í byrjun árs 2018 og hefur þegar verið ráðinn skólastjóri við skólann. 

Á árinu 2018 er gert ráð fyrir framkvæmdum að fjárhæð 1.850 mkr. Stærsta einstaka framkvæmdin eru áframhaldandi framkvæmdir við uppbyggingu Urriðaholtsskóla en um 400 mkr eru áætlaðar í uppbyggingu skólans.  Aðrar framkvæmdir við skólahúsnæði eru áætlaðar um 300 mkr og verður m.a. byrjað á viðbyggingu við Álftanesskóla.  Einnig er gert ráð fyrir 300 mkr framlagi til uppbyggingar fjölnota íþróttahúss og lokið verður við framkvæmdir við endurbætur á sundlauginni í Ásgarði sem verður opnuð á ný í ársbyrjun 2018.  Þá er áætlað að verja 150 mkr til að ljúka við framkvæmdir í Bæjargarði með gerð mana göngustíga og leiksvæða.  Til gatnagerðar, hljóðvistar og umferðarmála er áætlað að verja um 710 mkr.

Íbúar hafa getað sent inn ábendingar varðandi fjárhagsáætlun á vef bæjarins undanfarinn mánuð og íbúar geta áfram sent inn ábendingar í gegnum vefinn.  Á milli umræðna verður farið nánar yfir ábendingar frá íbúum. 

Greinargerð með fjárhagsáætlun (pdf-skjal)