20. jún. 2011

Uppbygging miðbæjar heldur áfram

Uppbyggingu á nýjum miðbæ Garðabæjar verður haldið áfram samkvæmt viðauka við samkomulag Garðabæjar og Klasa ehf. um miðbæ Garðabæjar sem bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti nýlega
  • Séð yfir Garðabæ

Uppbyggingu á nýjum miðbæ Garðabæjar verður haldið áfram samkvæmt viðauka við samkomulag Garðabæjar og Klasa ehf. um miðbæ Garðabæjar sem bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti á fundi sínum 16. júní sl. Garðatorg 1 (gamla Hagkaupshúsið) stendur áfram og Hönnunarsafn Íslands verður þar til húsa næstu 10 árin hið minnsta, samkvæmt viðaukanum. Frekari uppbygging á Garðatorgi hefst í síðasta lagi árið 2014 og henni á að ljúka árið 2017.


Garðabær og Klasi ehf. gerðu með sér samkomulag um uppbyggingu á nýjum miðbæ Garðabæjar í desember 2006. Fyrsti áfanginn var uppbygging verslunarkjarna við Litlatún en einnig stóð til að fara í umfangsmiklar framkvæmdir á Garðatorgi, þar sem m.a. átti að reisa nýtt hús fyrir Hönnunarsafn Íslands. Framkvæmdum við nýjan miðbæ var frestað haustið 2008 og hefur síðan verið leitað leiða til að þróa verkefnið áfram.

Hönnunarsafn áfram í Hagkaupshúsinu

Í viðaukanum sem nú hefur verið samþykktur er gert ráð fyrir að húsið að Garðatorgi 1 standi áfram og Garðabær leigi hluta þess til ársins 2021 með heimild til framlengingar um fimm ár til viðbótar. Í þeim hluta verði Hönnunarsafn Íslands áfram staðsett ásamt geymslu þess og skrifstofum sem og aðstaða fyrir listamenn og aðra menningartengda starfsemi.

Ný starfsemi að Garðatorgi 1

Garðabær aðeins leigja rými Hönnunarsafns á jarðhæð. Klasi mun sem eigandi húsnæðisins vinna að tillögum að notkun jarðhæðar hússins og í samstarfi við Garðabæ vinna að því að auka fjölbreytni í starfsemi á torginu og styrkja þar aðra verslun og menningarstarfsemi. Í því sambandi hefur t.d. verið horft til starfsemi minni matvöruverslunar, kaffihúss o.fl.

 

Tillaga að nýju skipulagi verði unnin á næstu 12 mánuðum

Í viðaukasmningi og viljayfirlýsingu sem fylgir honum kemur fram að aðilar munu sameiginlega vinna tillögu að breyttu skipulagi Garðatorgs í ljósi þess að Garðatorg 1 standi áfram. Gert er ráð fyrir nýjum byggingum vestan við Garðatorg 1 og syðst á Garðatorgslóðinni meðfram Vífilsstaðavegi en byggingarmagn er minnkað frá fyrra samkomulagi. Miðað er við að hluti bygginga við Vífilsstaðaveg verði fyrir verslun og þjónustu. Stefnt er að því að tillaga að breyttu skipulagi liggi fyrir innan 12 mánaða og að nýtt skipulag verði til innan tveggja ára. Markmiðið er að uppbygging á torginu hefjist ekki síðar en á árinu 2014 og ljúki á árinu 2017.


Áfram er gert ráð fyrir uppbyggingu við Kirkjulund og á hún að hefjast innan 18 mánaða.


Garðabær mun greiða Klasa fyrir þá fermetra sem ekki verða byggðir miðað við upphaflegt samkomulag samkvæmt gjaldskrá um gatnagerðargjald í Garðabæ (kr. 16.119 á fm í júní 2011). Hluti þess gjalds verður greiddur með því að Garðabær ráðstafar til Klasa fjórum lóðum við Rjúpnahæð sem metnar eru á samtals 40 milljónir kr.


Garðabær mun fá endurgreiddan að hluta þannl kostnað sem bærinn hefur sett í endurbætur á Hagkaupshúsinu en Klasi mun afsala til Garðabæjar húsnæði að Garðatorgi 3 sem er í eigu félagsins og metið er á um 20 mkr.