24. ágú. 2020

Ný leikskólabörn hefja skólagöngu í leikskólum Garðabæjar

Nú stendur yfir aðlögunartímabil í leikskólum Garðabæjar þar sem ný börn mæta í leikskólana til að kynnast starfinu. Vegna fjarlægðartakmarkana og sóttvarna er aðlögunartímabilinu dreift á lengri tíma en áður.

Þessa dagana er að hefjast aðlögun í leikskólum Garðabæjar en langflest börn byrja leikskólagönguna í ágúst og fram í byrjun september. Það er eftirvænting í loftinu á leikskólunum þegar ný börn og foreldrar birtast og verið er að móta starfsemi deildarinnar fyrir veturinn. Foreldrar og kennarar byggja upp saman traust og samvinnu um barnið og þarfir þess, þessi fyrstu kynni foreldra og barna af leikskólanum skipta miklu máli fyrir leikskóladvölina sem framundan er.

Vegna COVID 19 er aðlögunin framkvæmd með breyttum hætti henni er dreift á lengri tíma og foreldrar hafa minni aðgang í leikskólanum en þeir hafa haft. Þetta er gert til að framfylgja sóttvarnarreglum og vernda starfsemi leikskólanna eins og hægt er miðið við fulla starfsemi. Góð samvinna og gagnkvæmur skilningur hefur verið milli foreldra og kennara á tímum COVID 19 allt frá því að faraldurinn hófst og ríkir sama viðhorf nú það taka allir höndum saman um að leikskólastarfið geti haldið áfram með farsælum hætti.