11. sep. 2003

Ungir Garðbæingar á tónleikum menningar- og safnanefndar

Ungir Garðbæingar á tónleikum menningar- og safnanefndar
  • Séð yfir Garðabæ

Ungir Garðbæingar, Margrét Sigurðardóttir og Sigurgeir Agnarsson, koma fram á tónleikum í Kirkjuhvoli við Kirkjulund kl. 17 laugardaginn 13. september. Á tónleikunum verða flutt ýmis áhugaverð verk. Þau Margrét og Sigurgeir koma fram hvort fyrir sig en flytja einnig saman nokkur íslensk þjóðlög í útsetningu Margrétar. Peter Máté leikur með þeim á píanó.
Á tónleikunum fá ungir og efnilegir tónlistarmenn úr Garðabæ tækifæri til að sýna Garðbæingum sem og öðrum höfuðborgarbúum hvað í þeim býr. Menningar- og safnanefnd Garðabæjar skipuleggur tónleikana sem verða haldnir á laugardaginn. Miðasala verður á staðnum. Styrktaraðilar tónleikana eru Búnaðarbankinn í Garðabæ og Íslandsbanki í Garðabæ.

Frá vinstri: Margrét, Peter og Sigurgeir.

Margrét Sigurðardóttir flytur m.a. lagaflokkinn Hermit Songs (Einbúalögin) eftir bandaríska tónskáldið Samuel Barber (1910-1981). Einbúalögin eru flokkur tíu laga við írskan munkakveðskap sem talinn er frá á 8. til 13. öld. Einnig flytur Margrét lög eftir Francis Poulenc(1899-1963) sem er talinn meðal snjöllustu sönglagatónskálda Frakklands á 20. öld.

Sigurgeir Agnarsson flytur tvíþætta sellósónötu eftir Györgi Ligeti (f. 1923). Ligeti þykir eitt frumlegasta tónskáld nútímans. Sigurgeir flytur einnig sónötu í c-dúr eftir Boccherini (1743-1805) og þar fær hann sellóleikarann Hrafnkell Orra Egilsson til liðs við sig.

Margrét hefur sl. tvö ár stundað framhaldsnám við Royal Academy of Music í London þar sem aðalkennari hennar var Elizabeth Ritchie. Áður lauk hún 8.stigi í söng og 7.stigi í píanóleik þar sem aðalkennarar hennar voru Elísabet Erlingsdóttir og Peter Máté. Hún nam einnig í eitt ár við söngleikjadeild Konservatorium der Stadt Wien í Vínarborg. Margrét hefur einnig stundað nám í tónsmíðum við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík.

Margrét hefur sungið með kammerkór Hallgrímskirkju; Scola Cantorum, og hún hefur einnig haldið tvenna einsöngstónleika, sungið og leikið í söngleikjauppfærslum hérlendis. Í London hefur Margrét sungið einsöng í Messíasi e. Händel og Gloriu e. Vivaldi og komið fram á ýmsum tónleikum, bæði í London og á Ítalíu.

Sigurgeir Agnarsson hóf sellónám í Tónlistarskólanum í Garðabæ 1984 undir handleiðslu Gunnars Kvaran og útskrifaðist með einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1995. Síðar lauk hann Bachelor- og Mastersprófi frá New England Conservatory í Boston hjá David Wells og Laurence Lesser. Frekara framhaldsnám stundaði hann við Robert Schumann tónlistarháskólann í Düsseldorf í Þýskalandi hjá Prof. Johannes Goritzki. Síðustu ár hefur Sigurgeir leikið reglubundið með þýsku Kammerakademíunni Neuss am Rhein. Sigurgeir var fulltrúi Íslands í tónleikaröðinni „Podium of Young European Musicians" þar sem hann hélt tónleika í Goethe stofnuninni í Brussel. Frá og með september 2003 spilar Sigurgeir með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Píanóleikarann Peter Máté þarf vart að kynna fyrir íslendingum. Peter lærði hjá Ludmilu Kojanová í Kosice og Valentinu Kameníková við Tónlistarakademíuna í Prag. Á námsárunum vann hann til margra verðlauna í heimalandi sínu Tékklandi, og síðar í alþjóðlegum keppnum. Peter hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 1990 og kennir nú við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann hefur haldið einleikstónleika, leikið einleik með ýmsum sinfóníuhljómsveitum og tekið þátt í kammertónleikum víða í Evrópu og Bandaríkjunum.

Almennt miðaverð er 1 500 kr
Miðaverð fyrir eldri borgara og námsmenn 1 000 kr og miðaverð fyrir börn er 500 kr.
Miðasala fer fram í safnaðarheimilinu fyrir tónleikana.